Sunday, September 05, 2004

Fra Aros med Eros

Jæja, þá er mamma Dóra sest við lyklborðið. Í gær var Íslendingagrill hér á flötinni fyrir framan hjá okkur. Hér í kjarnanum sem við búum í eru 7 íslenskar fjölskyldur á svipuðu reki og við, í háskólanámi með börn á svipuðum aldri og okkar. Það var voða notalegt að hittast svona og grilla. Mér varð hugsað til þess að ég þekki ekki marga á Dragaveginum okkar þótt við höfum náð að búa þar í ár en það er gott að kynnast Íslendingum í útlöndum. Rósa María hefur eignast marga góða vini hér og hleypur út til að leika við þá um leið og hún sér einhvern fyrir utan. Hún fékk nýtt hjól um daginn og það hefur verið mjög vinsælt að fara út og hjóla.

Í dag var svo síðasti formlegi sumarfrísdagurinn okkar því á morgun byrjar Bóas á fullu í náminu. Þetta er búið að vera alvöru sumardagur, 25 stiga hiti og sól. Undanfarna viku hefur verið listahátíð hér í Árósum með ýmsum uppákomum undir yfirskriftinni "Fra Aros med Eros". Við höfum ekki farið á marga viðburði en Bóas og Rósa María fóru á Sirkus um daginn og ég og Hildur (kærastan hans Óskars) kíktum aðeins á næturlífið á föstudag, settumst á kaffihús við canalinn og horfðum á mannlífið. Í dag var svo síðasti dagur listahátíðar svo við drifum okkur í bæinn og í hoppukastalaland (sjá myndir í myndaalbúminu) við mikla hrifningu Rósu Maríu sem hoppaði á milli kastala tímunum saman. Eftir gengum við um hinar sjarmerandi göngugötur Árósa, meðfram kanalnum og fórum svo út að borða. Þetta var fyrst ferð Guðmundar Ísaks á veitingahús og hafði hann mjög gaman af (þó hann fengi bara mjólk eins og venjulega ; ) Hitastigið var enn 24 gráður þegar við röltum í strætó um átta leytið. Við komum svo heim eftir frábæran fjölskyldudag, þreytt og ánægð.
Ástarkveðjur frá Aros med Eros ; )

0 Comments:

Post a Comment

<< Home