Tuesday, January 25, 2005

Skip, spil og Roskilde

Jæja segi ég nú bara. Framhaldssagan bíllinn til Danmerkur hefur heldur betur framhaldist. Dóra setti bílinn nefnilega í frakt frá Íslandi fyrri 10 dögum. Átti hann síðan að koma hingað síðasta fimmtudag og skv. venju átti að vera hægt að sækja hann á föstudaginn eða í gær mánudag. Ekki gekk það á föstudaginn vegna seinkunnar skildist okkur. Hringdum við því í gær og var okkur tjáð að verkfall hafnaverkamanna í Árósum hefði sett strik í reikninginn. Skipið hefði ekki getað lagt að höfn hér í síðustu viku og hafði ekki getað landað í nálægum höfnum vegna samúðarverkfalla hér allt um kring. Skipið hefði því haldið áfram sinn hefðbundna hring og færi því aftur til Íslands með bílinn áður en það kæmi hingað aftur ca 4. febrúar. Þetta er svona aðstæður þar sem maður getur ekki einu sinni verið pirraður eða kennt neinum um. En samt er maður hellings pirraður og að reyna að kenna einhverjum um. Vonandi verður bara gott í sjóinn svo bíllinn verði ekki sjóveikur. En hann verður allavegana orðinn vel sigldur eftir þessa ferð.

Rósa fer fram úr björtustu vonum þessa dagana verð ég að segja. Endurkoma hennar í leikskólann gengur vægast sagt frábærlega. Krakkarnir mundu enþá eftir henni og fóstrunar tóku vel og hlýlega á móti henni fyrstu dagana. Rósa er búinn að vera mjög jákvæð og hefur viljað fara snemma á morgnanna og vera stórann hluta úr deginum. Þegar ég sæki hana þá vill hún líka oft sem betur fer vera lengur og klára það sem hún er að gera o.s.frv. Þannig að það gengur framar öllum óskum. Mætti næstum segja að hún hafi bara verið búinn að fá nóg af fríi og heimsóknum og orðinn þyrst í að leika og gera vesenn með krökkunum allan daginn.

Annars kemur það mér mjög á óvart hvað hún er klár. Við höfum verið að spila undanfarinn kvöld en hún hefur getað spilað Veiðimann nú í nokkurn tíma. Á tveimur kvöldum hef ég hins vegar getað kennt henni Ólsen, Steliþjóf og Endalausavitleysu og man hún allar reglur og allt. En þessi spil séu mjög ólíkt og krefjast þess að geta gert greinamun á sortum og styrkleika innan sorta. Svo maður tali ekki um að áttan geti verið allar sortir (í einu spili en ekki öðru) og að ás sem er með fæstu punktana sé hæðsta spilið (en samt eru fleiri punktar oftast meira en færri) . En þetta étur hún upp og fer létt með. Ef þið hafði einhverjar hugmyndir af fleiri spilum þá væri gaman að heyra af því.

Fékk fréttir af því í gær að ég væri að fara á Hrósaskildu næsta sumar. Ég þarf nefnilega að standa við loforð um að ég myndi skella mér ef vinur minn myndi spila. Hafði í sjálfu sér ekkert gert ráð fyrir því að fara í sumar og langar í sjálfu sér ekkert að fara í tónleikahátíð. En ég stend við loforðið með glöðu geði. og svo ég endi þessa langloku með því að vitna í sjálfan mig síðan í gær: "ég kem þó ég komist ekki". Vonum bara að bíllinn okkar og Samskip hafi þetta að leiðarljósi næstu daga.




1 Comments:

At 10:37 PM, Anonymous Anonymous said...

Ef þig vantar einhvern til að pirra þig út í vegna bílsins, þá er ég alveg boðinn og búinn. Þú mátt sem sagt blóta mér í sand og ösku enda hittumst við ekki fyrr en einhvern tíman í sumar.

Með kveðju,
Jón Hákon.

 

Post a Comment

<< Home