Tuesday, November 30, 2004

Hann er hálfs árs í dag.....

Hann Guðmundur Ísak er orðinn hálfs árs í dag.... já tíminn líður : ) Við finnum fyrir því að strákurinn okkar stækkar og þroskast með hverjum deginum. Í dag á sex mánaða afmælisdaginn hans fengum við heimsókn frá hjúkrunarfræðingnum sem kom til að mæla hann í bak og fyrir. Hann fékk fyrstu einkunn eins og alltaf og í ummælum hjúkkunnar stóð m.a. "staar i kravlestilling, sidder fint ved stötte. Undersöger alt. pludrer. Fin udvikling". Hann hafði þyngst um nokkur hundruð grömm frá því hann var hjá lækninum um miðjan mánuðinn og það þótti gott. Hann fylgir "kúrfunni" sinni og er nú tæp 8 kg. Hjúkkan hafði orð á því að það væri mikilvægt að hann borðaði vel því svona kröftugur og "aktífur" drengur brennir miklu. Hún þurfti ekki að horfa á hann lengi til að átta sig á því hve aktífur hann er því hann ferðast hér um allt með sinni eigin skriðtækni. Ég hef verið að leggja teppi hér um öll gólf en hann er ótrúlega fljótur að koma sér út af þeim. Hann skríður með höndunum og fer upp á hnén en hann lyftir maganum ekki alveg upp svo þetta er ekki alveg komið ennþá enda sagði hjúkkan honum bara að taka því rólega því hann ætti ekkert að fara að skríða fyrr en eftir þrjá mánuði. Hann tók nú passlega mikið mark á henni og hélt bara áfram að ormast áfram og ná í það sem honum þótti mest spennandi hverju sinni. HONUM LIGGUR Á!!!

Á laugardagskvöldið fór hann í pössun til Rúnars frænda og Hugrúnar með systur sinni meðan við hjónin fórum í matarboð. Það var svolítið skrýtin tilfinning að skilja hann eftir og ganga út í skammdegið "alein" við tvö. Við höfðum orð á því að litli strákurinn okkar væri nú ekki svo rosalega lítill lengur. Sem betur fer gekk allt vel, þegar við komum úr matarboðinu var Rósa María sofnuð með Ástrósu frænku sinni og Guðmundur Ísak var sofandi í sófanum hjá Hugrúnu. Þau buðu okkur svo í íslenskt lamb (keypt í Danmörku) á sunnudagskvöldinu og við áttum yndislegt aðventukvöld saman. Það er búið að vera mjög gaman að kynnast Rúnari frænda og fjölskyldu hér í Danmörku og við finnum það öll að það er dýrmætt að eiga frænda og frænku- líka hér úti.

Á morgun 1. desember er okkur svo boðið í alvöru danskt afmæli. Hann August vinur okkar sem við kynntumst á leikvellinum er tveggja ára. Við höfum heyrt það að Danir geri mjög mikið úr afmælum og haldi mikla hátið. Afmælið byrjar klukkan 15 og okkur er bæði boðið í afmæliskaffi og kvöldmat. Við hlökkum mikið til að fara í afmælið og kynnast dönskum afmælissiðum.....aldrei að vita nema maður geti lært eitthvð skemmtilegt...

Friday, November 26, 2004

Jólin byrja að koma í dag...

Í dag verður kveikt á jólunum hér í Árósum. Þannig að það verður rosa fjölmennt í miðbænum og allir að fylgjast með þegar kveikt verður á skreytingum og seríum. Rosa stemming bara. Manneskjan sem fær að ýta á takkann örugglega vinsælasta manneskja kvöldsins. Að vera sá sem fær að kveikja á jólunum er örugglega upp með sér, enda merkilegt hlutverk. Þetta er svona eins og grænt ljós á gjafakaup. Enda langt í sjálft afmælið. Núna má og á að eyða. Einn, tveir og nú byrja.

Leiðinlegt samt að vera gæinn sem slekkur á jólunum í janúar. Þvílíkur durgur.

Góða helgi :)

Saturday, November 20, 2004

Falleg tónlist

Þetta finnst mér falleg tónlist.

Friday, November 19, 2004


Hæ velkomin á heimasíðuna mína. Við vorum að setja inn nokkrar myndir frá hátíð sem var á leikskólanum mínum í gær. Þá þurfti ég sko að mæta kl 6:30 í leiksskólan og við fórum út að ganga með luktir og ljós og sungum. Síðan var opnuð búð og ég keypti svona laufblaðakrans og sultukrukku. Rosalega gaman.

Monday, November 15, 2004


Ég er að borða epli en Pabbi var að bæta við myndum hérna til hliðar undir nafninu Geitur og grautur.

Stór strákur

Guðmundur Ísak fór til læknis og í sprautu í dag og er hinn hressasti. Hann mun vera 69 cm og 7 1/2 kíló skv mælingu morgunsins. Það er bara þannig sko...vissi að þið mynduð vilja vita af þessu enda forsíðufréttir þannig séð.

Sunday, November 14, 2004

Randers Regnskov

Mér og Rósu Maríu var boðið í bíltúr af nágrana okkar í dag. Fórum í hitabeltisparadísina Randers Regnskov sem er hér í nágreninu. Þetta eru þrjú kúlulaga gróðurhús sem hýsa þrjár heimsálfur, Afríku, Asíiu og S-Ameríku ef ég man rétt. Fun hiti náttúrulega þarna inni og erfitt að smella af myndum vegna raka á linsunni og svoleiðis. En hörku skemmtileg upplifun.

Við hittum Tímon og Púmba sem eru vinir hennar Rósu úr teiknimyndaseríu. Þ.e. við sáum villisvín og eyðimerkur hund.

Rósa María vildið þó ekki kyssa froskana sem við fundum til að athuga hvort þeir myndu breytast í prins. Hún fær prik fyrir það að kyssa ekki hvern sem er.

Var samt að pæla hvort það væru svona búr í Afríku þar sem maður gæti upplifað skítakulda, snjókomu og hálku, upp á íslenska/danska vísu. Svona eitthvað sem hægt væri að kalla The Icelandic Icebox eða The Nordic Brease, jafnvel The Cold Wildlife.

Tuesday, November 09, 2004

Örorkubætur

Það er bara spurning um að sækja um örorkubætur. Allavegana skv þessari frétt um að kaffidrykkja sé geðsjúkdómur. Skilst að það sé vel gert fyrir öryrkja hér í Danmörku.

Nei, í alvörunni.

Mér finnst nú alveg aldeilis óþarfi að fara að flokka hausverk sem fylgir fráhvarfseinkennum af koffeini undir það að vera geðsjúkdóm. Hvernig væri að kalla það bara manneskja sem er ekki búinn að fá kaffibollan sinn. Mér finnst þetta líka gefa þeim sem þjást í alvöru af geðröskunum langt nef.

Sumt er bara fyndið í íslenskum fréttum!!

Mér finnst fyndið að Olíufélöginn biðjist öll afsökun á nánast sama tíma. Spurning hvort þau hafi haft samráð um það...

Mér finnst líka soldið fyndið að sjá kennara klappa og syngja ÁFRAM ÁFRAM KENNARAR í fréttatímanum áðan. Bara rosa stemning, lifi verkfallið og byltingin!!

Mér finnst líka alltaf fyndið eða bara asnalegt þegar maður hefur það af að horfa á íþróttafréttir af golfi. Þá fær maður alltaf að vita hvað sigurvegarinn græddi mikla peninga. Aldrei fær maður að vita hvað Arsenal vinnur mikla peninga þegar þeir verða meistarar eða hvað shumaker græðir mikið á að keyra hraðar en næsti.
Spurning um að láta Olíufélögin og kennara vita af þessu.

Dæmi 1: Nú er búið að kenna ykkur börnin góð samlagningu og kennarinn hefur fengið samtals 150 þúsund í "verð"launafé í mánuðinum. Hvað þýðir það fyrir 34 ára kennara með 7 ára starfsreynslu, 23 stundir í kennsluskyldu, 3 ára háskólanám, 4 skólastjóraflokka, 27 börn í bekk, 2 börn á leiksskólaaldri og 5 korter í kaffitíma og 217 mínútur í umsjón. Eftir 5 ára samningstíma miðað við 2% verðbólgu og hækkandi vexti. Ég bara spyr!?*´'+´´

Dæmi 2: Nú ert þú búinn að dæla 37 lítrum af bensíni á bílinn þinn og Olíufélögin búinn að fá 417 krónur í vasann umfram það sem þau eiga skilið. OG engin veit af því (sem er alveg ótrúlega merkilegt þar sem verið er að tala um 6 milljarða). Spurning því hvað á að gera við peningana sem enginn veit hvort sem er af!!!

Hugmynd: Kannski að láta kennarana bara fá þá. Skilja þá fyrir utan heima hjá Eiríki, ofan í bensín brúsa kannski. Bara pæling...

Sunday, November 07, 2004

Tilkynning ! Tilkynning !

Drengurinn er hættur að drekka....................bara mjólk. Í dag hóf pilturinn að borða og hann borðaði banana. Hvað annað eiga mannapar að borða ég bara spyr!

Gátan

Ég og Rósa að tala saman:

Rósa: á ég að segja þér gátu pabbi.
Ég: já, já endilega (beið eftir gátunni með veggina tvo sem hittust á horninu, sem hún segir stundum).
Rósa: Hver á þennan staf...Ø. (Teiknar stafinn á gluggann í strætónum)
Ég: huuumm við þekkjum engan sem á þennan staf (segi ég á svona umhyggjusaman hátt, greyið stelpan að ruglast eitthvað).
Rósa: Júuuuú pabbi víst. Kú. Kúinn á þenna staf.

Ég: Alveg gáttaður á þessari stelpu.

Wednesday, November 03, 2004

Að éta vinina sína !!!

Ég gaf Rósu sleikjó í vikunni. Sleikjóinn var svona eins og lítil dúkka. Nákvæm eftirmynd af Selmu sem er sko kærastan hans Bubba byggir. Ég pældi svo sem ekkert í þessu fyrr en eftir á. En ég var að ætlast til þess að dóttir mín færi og borðaði ágætan vin sin. Dóttur minni fannst þetta ekkert vandamál. Og splatter lýsingarnar hjá henni þegar hún sagðist vera að naga eyrun og slíta hausinn af og borða höndina á vinkonnu sinni, voru nokkuð fyndnar.

Ég sem gríðalega ábyrgur uppalandi var samt að pæla. Hvað skilaboð var ég að senda dóttur minn með þessum sleikjókaupum !!!

Monday, November 01, 2004

Komin í lestina.

Fjölskyldan mín er sem sagt lögð af stað frá Köben með lest. Allt hefur gengið eins og í sögu hjá þeim. Er að fara að sækja þau kl. 16:00. Hlakka soldið til sko. Spurninginn er hvort Guðmundur Ísak eigi eftir að muna eftir mér? Er hægt að komast að því?

Þegar ég sagði Rósu í gær að ég væri kominn með soldið skegg þá sagðist hún ekkert viss um að hún myndi þekkja mig með skegg. Eftri smá pásu sagðist hún þó geta bara þekkt röddina í mér. Það verður gaman að sjá hvernig það á eftir að ganga hjá þeim.

Ætli ég standi ekki bara með spjald framan á mér þar sem á stendur "fjölskyldan mín" til þess að þekkja þau eins og leigubílstjórar gera á flugvöllum. Bara að vona að rétta fjölskyldan vilji láta sækja sig.