Friday, January 28, 2005

Góða helgi

Nú er komin helgi og stefnt á sérstaklega mikið afsleppelsi. Heimsmeistara keppnin í handbolta í algleymingi og horfir maður spenntur á Daninna næstu daga. Keppa við Túnis í dag og Frakka á sunnudag. Það er kraftur í danska liðinu og líklegt til afreka sýnist mér.

Vikan búin að vera nokkuð viðburðar lítil og það markverðasta kannski að ég kláraði formlega fyrstu önnina mína þar sem niðurstöður prófana voru gefna í vikunni. Var kallinn nokkuð sáttur með útkomuna og ánægður með að fá nú formlegan rétt á námslánunum. Fyrsti hluti af 4 því í hús.

Fórum í matarboð hjá dönskum vinum okkar í gær og var það mjög skemmtilegt. Danskan brúkuð af miklum móð og get ég ekki annað sagt en að við höfum náð ansi langt í spjalltækninni á þessum stutta tíma. Meira að segja Rósa var farinn að svara og skilja spurningar og ábendingar á dönsku sýndist mér. Þessi tvenn hjón sem við hittum í gær eru líka svo létt á því og aflöppuð og mjög hjálpleg í tengslum við tungumála dæmið allt saman. Það er bara virkilega gaman að því að fá tækifæri til að mynda svona smá contakt við innfædda og fá þannig svonan persónulegri upplifun af dönum. Það er nefnilega það mikið af Íslendingum hérna á svæðinu að það er einstaklega auðvelt að vera í Danmörku í 2 ár og mynda mjög góð tengsl við Íslendinga og ná litlum sambandi við Danina sjálfa. Aðstæður sem vinna á móti manni hvað varðar tungumála framfarir held ég. Þó svo að mikið sé af góðu fólki sé hér af íslensku bergi brotið þá finnst mér lífsnauðsynlegt að ná svona smá tengingu við danina sjálfa, allavegana smá.

En nóg um það í bili. Ætla að fara út í skóg að taka myndir af krökkunum um helgina. Verða þær til sýnis í næstu viku. Góða helgi :)





Tuesday, January 25, 2005

Skip, spil og Roskilde

Jæja segi ég nú bara. Framhaldssagan bíllinn til Danmerkur hefur heldur betur framhaldist. Dóra setti bílinn nefnilega í frakt frá Íslandi fyrri 10 dögum. Átti hann síðan að koma hingað síðasta fimmtudag og skv. venju átti að vera hægt að sækja hann á föstudaginn eða í gær mánudag. Ekki gekk það á föstudaginn vegna seinkunnar skildist okkur. Hringdum við því í gær og var okkur tjáð að verkfall hafnaverkamanna í Árósum hefði sett strik í reikninginn. Skipið hefði ekki getað lagt að höfn hér í síðustu viku og hafði ekki getað landað í nálægum höfnum vegna samúðarverkfalla hér allt um kring. Skipið hefði því haldið áfram sinn hefðbundna hring og færi því aftur til Íslands með bílinn áður en það kæmi hingað aftur ca 4. febrúar. Þetta er svona aðstæður þar sem maður getur ekki einu sinni verið pirraður eða kennt neinum um. En samt er maður hellings pirraður og að reyna að kenna einhverjum um. Vonandi verður bara gott í sjóinn svo bíllinn verði ekki sjóveikur. En hann verður allavegana orðinn vel sigldur eftir þessa ferð.

Rósa fer fram úr björtustu vonum þessa dagana verð ég að segja. Endurkoma hennar í leikskólann gengur vægast sagt frábærlega. Krakkarnir mundu enþá eftir henni og fóstrunar tóku vel og hlýlega á móti henni fyrstu dagana. Rósa er búinn að vera mjög jákvæð og hefur viljað fara snemma á morgnanna og vera stórann hluta úr deginum. Þegar ég sæki hana þá vill hún líka oft sem betur fer vera lengur og klára það sem hún er að gera o.s.frv. Þannig að það gengur framar öllum óskum. Mætti næstum segja að hún hafi bara verið búinn að fá nóg af fríi og heimsóknum og orðinn þyrst í að leika og gera vesenn með krökkunum allan daginn.

Annars kemur það mér mjög á óvart hvað hún er klár. Við höfum verið að spila undanfarinn kvöld en hún hefur getað spilað Veiðimann nú í nokkurn tíma. Á tveimur kvöldum hef ég hins vegar getað kennt henni Ólsen, Steliþjóf og Endalausavitleysu og man hún allar reglur og allt. En þessi spil séu mjög ólíkt og krefjast þess að geta gert greinamun á sortum og styrkleika innan sorta. Svo maður tali ekki um að áttan geti verið allar sortir (í einu spili en ekki öðru) og að ás sem er með fæstu punktana sé hæðsta spilið (en samt eru fleiri punktar oftast meira en færri) . En þetta étur hún upp og fer létt með. Ef þið hafði einhverjar hugmyndir af fleiri spilum þá væri gaman að heyra af því.

Fékk fréttir af því í gær að ég væri að fara á Hrósaskildu næsta sumar. Ég þarf nefnilega að standa við loforð um að ég myndi skella mér ef vinur minn myndi spila. Hafði í sjálfu sér ekkert gert ráð fyrir því að fara í sumar og langar í sjálfu sér ekkert að fara í tónleikahátíð. En ég stend við loforðið með glöðu geði. og svo ég endi þessa langloku með því að vitna í sjálfan mig síðan í gær: "ég kem þó ég komist ekki". Vonum bara að bíllinn okkar og Samskip hafi þetta að leiðarljósi næstu daga.




Sunday, January 16, 2005

Gengið komið

Dóra, krakkarnir og Laufey Fríða komu í dag frá Íslandi. Ferðinn gekk víst bara mjög vel en þau komu keyrandi frá Köben því vinafólk okkar þurfti að láta transportera bílnum sínum hingað. Dóra var því dauðþreytt eftir að hafa ferðast svona lengi og keyrt en Guðmundur Ísak var hinsvegara hinn hressasti því hann hafði sofið alla leiðina frá Köben til Aarhus.

Ég eyddi kvöldinu í barbie leik með Rósu Maríu og við settum saman jólagjöfinna hennar sem var risabarbie hús. Ég er ekki alveg að fatta þessa barbie leiki eða út á hvað þeir ganga. Dúkkur að fæða börn og haldinn teboð og farið að sofa og síðan vaknað aftur o.s.frv.

Ég kláraði fyrstu önnina mína í gær og fæ núna 2 vikur í frí þangað til næsta törn byrjar. Það mætti alveg vera lengra hlé en maður misti soldið af jólafríinu vegna verkefna vinnu. En námslokinn færast allavegana nær og nær með hverjum degi og það er ágæt.

Bíllin okkar kemur svo í næstu viku svo mamma og pabbi, svo Anna Kristín og Ása og svo kannski aftur Laufey og síðan kíkir Guðmundur eldri kannski með vorinu. Þannig að það er bara allt að gerast. Okkur hlakkar bara til.

Sunday, January 09, 2005

Glæpamenn í Danmörku

Tveir lögreglumenn eru búnir að vera að dunda sér í allan dag fyrir framan íbúðina hjá mér. Þeir eru búnir að vera að tala í talstöðvar og labba í kringum bíl sem stóð hérna fyrir utan. Forvitnin (nysgerrig) tók náttúrulega völdin og ég fór og tékkaði á því hvað þeir væru að gera. Kom þá í ljós að umræddi bíllinn var stolinn og komu þeir nokkru síðar með feiknastóran dráttarbíl og sóttu þýfið. Þetta er þriðja atvikið á stuttum tíma sem tengist glæpum. Fyrir jól voru brotnar rúður í tveimur bílum á bílastæðinu við hliðina og um jólin var brotist inn í íbúð hjá íslenskum vinum mínum á móti. Það er sem sagt nóg um að vera í glæpabransanum hér.

Eftir að ég var síðan búinn að hneykslast aðeins yfir þessu í dag. Þá var bankað. Ég var þá í símanum með sjónvarpið á að fylgjast svona með áhrifum ofsaveðursins. Haldið ekki að það hafi þá verið sjónvarpslöggan að tékka á því hvort ég væri með sjónvarp í íbúðinni. Minn ekki í neinni aðstöðu til að ljúga og þurfti því að skrifa upp á að ég hefði eitt slíkt. Byrja því fljótlega að borga fleiri reikinga en ég hef áhuga á.

En eins og ég segi bara nóg að gera í glæpabransanum hér. Spurning hvað verður næst.

Vonskuveður

Í gærdag gekk mannskætt vonskuveður hér yfir Aarhus í orðsins fylstu merkingu. Þakplötur feiktust af húsum, kofar tókust á loft og tré ultu yfir vegi. Ég sjálfur áttaði mig ekki á ástandinu fyrr en ég horfði á kvöldfréttirnar. Um sama leiti og verstu kviðurnar gengu yfir og fólk sent heim úr skólum og vinnum þá fór ég bara út í búð að kaupa í matinn. Því er ekki að neita að manni brá aðeins þegar maður horfði á fréttirnar og sá að veðrið hafði haft töluverð áhrif í Brabrant og Hasle sem eru hverfi hér í nágreninu.

Mestu vandræðin á Aarhusasvæðin munu hafa verið í Trige þar sem Óskar bróðir býr en þar var rafmagnslaust í gærkvöldi. Ég náði þó í hann seinnt í gærkvöldi og hafði þá verið búið að koma rafmagninu aftur á.

Annars held ég að vesturströndin hafi farið verr út úr þessu en austurstöndin þar sem ég er. Maður upplifir kannski eitthvað sterkar hvað maður er varnarlaus gagn vart náttúrunni með hliðsjón af Asíu flóðbylgjunni. En á sama tíma merkilegt hvað þetta kemur einhvernvegin aftan að manni.

Maður er annars í smá fríi núna fram á miðvikudag. Gengið kemur hingað á sunnudaginn þannig að maður bíður bara spenntur eftir að það lifni aðeins yfir íbúðinni.

Monday, January 03, 2005

Viðburðaríkur fyrsti dagur í Danaveldi

- Skilaði rigerðum inn til einkunnagjafar.
- Talaði meiri dönsku en íslensku í dag. Enda að læra samtalstækni þessa dagana.
- Arabi vorkendi mér á strætóstoppistöð og gaf mér strætómiða óumbeðinn.
- Afgreiðslumaður á MaCdónalds vorkendi mér og hélt á matnum mínum á borðið.
- Braust inn í bíl hjá nágrana mínum með gítarstrengjum og batterý.